Afþreying í boði

Afþreying í boði


Á Hömrum er ýmiskonar afþreying í boði fyrir alla aldurshópa.


Bátar

Hægt er að leigja báta á bátatjörninni sem er mjög vinsælt hjá öllum aldurshópum. Opnunartími bátaleigunar er auglýstur á bryggjuhúsinu við tjörnina og hjá tjaldvörðum. Hafa skal samband við tjaldvörð til að fá aðgang að bátum. Ef farið er út á tjarnirnar á bátum eða öðru skal ávallt nota björgunarvesti. Börn eiga aldrei að vera ein við leik við, á eða í tjörnunum.


Minigolf

Á svæðinu er minigolf. Hægt er að leigja kylfur og kúlur hjá tjaldverði.


Frisbígolf, FOLF

18 holu Folfvöllur er á og í kringum Hamra. Folf er skemmtileg íþrótt sem svipar til golfs, nema í staðinn á að hitta frisbee diskum í þar til gerðar körfur. Hægt er að fá skorkort hjá tjaldverði, einnig er hægt að prenta út kortið á slóðinni. Hjá tjaldvörðum er hægt að kaupa folfdiska.


  Kort af FOLF-vellinum


Folf -Frisbee golf - skemmtileg almenningsíþrótt

Frisbee golf er leikið á svipaðan hátt og venjulegt golf. Í stað golfkylfa og golfbolta nota leikmenn frisbídiska. Þessi íþrótt var mótuð á áttunda áratug og á það sameiginlegt með venjulegu golfi að reynt er að klára hverja holu í sem fæstum köstum. Folfdisknum er kastað frá teigsvæði í átt að skotmarki sem er “holan”. Þessi hola getur verið mismunandi en oftast er um að ræða sérsmíðaðar körfur. Leikmenn taka hvert kast frá þeim stað þar sem diskurinn lenti síðast. Hæðir, hólar, tré o.f.l. sem finna má út um allan völlinn eru leikmönnum áskorun og hindrun í tilraunum þeirra við að koma disknum í körfuna. Loks endar “púttið” í körfunni og þeirri holu er þá lokið.


Fótboltaspil

Á Hömrum hefur verið sett upp risafótboltaspil sem gaman er að prufa. Leikmenn eru fastir við þar til gerðar stangir, og eiga þannig að reyna að skora mark hjá andstæðingnum.


Tjarnir

Á Hömrum hafa verðið búnar til þrjár tjarnir í farvegi Brunnárinnar. Neðsta tjörnin kallast Bátatjörn þar sem bátaleigan er. Næsta tjörn þar fyrir ofan kallast Vaðtjörn. Hún er grunn og þar er hægt að vaða. Einnig eru stiklur yfir tjörnina og þrautabraut fyrir yngri krakka. Við vaðtjörn er einnig útisturtur með volgu vatni. Þar er hægt að skola af sér leðjuna og fá yl í kroppinn. Fyrsta karfan á frisbígolfvellinum er við Vaðtjörn. Efstatjörnin kallast Leikjatjörn. Þar er hægt að vaða og sulla klukkutímunum saman, eða leika sér í þar til gerðum leiktækjum, renna sér niður risa rennibraut  eða fara í koddaslag o.fl. Athygli er samt vakin á því, að börn eiga ekki að vera ein að leik við tjarnirnar.


Fótboltavöllur og leikvöllur

Fótboltavellur og leikjaflatir eru á svæðinu fyrir ofan risafótboltaspilið. Tveir leikvellir fyrir börn  eru á Hömrum. Annar þeirra er með rólum, klifurgrind, klifurvegg sandkassa og rennirólu er staðsettur bak við grænu hlöðuna við tjaldflöt 1. Hinn völlurinn er við tjaldflatir 7, 8 og 9 er með rennibraut, rólum, vegasalti, rugguhesti og sandkassa .


Gönguferðir

Á og í kringum Hamra er náttúran stórbrotin og skemmtileg. Margrar skemmtilegar gönguleiðir liggja frá Hömrum, bæði inn í Kjarnaskóg, út í Nausta- og Hamraborgir eða uppá hamrana fyrir ofan tjaldsvæðið. Fyrir þá sem vilja fara í lengri ferðir er stikuð leið uppá Súlur frá Hömrum, sem er skemmtileg tilbreyting frá "hefðbundu" Súluleiðinni. Tjaldverðir geta veitt allar upplýsingar um spennandi gönguleiðir á svæðinu.


Kort af gönguleiðum á svæðinu